Áhrif sveiflunnar

Það eru ekki margar æfingar sem virkja stóran hluta af vöðvum líkamans og búa til styrk, kraft og jafnvægi – allt í einni æfingu. Hver vöðvahópur hefur sitt hlutverk, sumir vöðvahópar búa til kraft á meðan aðrir búa til stöðugleika í líkamanum. Ketilbjöllusveifla er æfing sem krefst þess að þú notir vöðvana í mjöðmum og neðri útlimum til að búa til kraftinn í sveifluna en kviðvöðvarnir, bakvöðvarnir og vöðvar kringum axlargrindina virkjast til að stjórna skriðþunganum, jafnvægi og halda réttri líkamsstöðu.

Sveiflan er framkvæmd þannig að haldið er með annarri eða báðum höndum um ketilbjöllu og henni er sveiflað niður á milli fóta og svo í beina línu fram þar til bjallan er í hæð við hökuna og síðan fer bjallan aftur sömu leið til baka.

Í uppsveiflunni er aftari vöðvakeðjan virkjuð, sú keðja samanstendur af vöðum í kálfa, aftanverðu læri, rassvöðvum og mjóbaksvöðum. Sprengikrafturinn í uppsveiflunni kemur að mestu frá mjöðmum. Mikilvægt er að standa vel í báða fætur og halda þunganum á hælunum. Á niðurleiðinni brjótum við okkur saman um mjaðmir, hnén eru mjúk (ekki læst) í gegnum alla sveifluna og bakið beint. Mikilvægt er að hreyfingin fari alfarið fram um mjaðmir til að virkja aftari vöðvakeðjuna.

Kviðvöðva, bakvöðva og vöðva í kringum axlargrindina notum við til að stöðva bjölluna í hæð við hökuna, halda jafnvægi og stýra bjöllunni niður aftur.

Ketilbjöllusveiflan er tæknileg æfing og mikilvægt er að læra tæknina vel áður en miklum þyngdum er bætt við. Velja þarf bjöllu af réttri þyngd, hvorki of létta né of þunga. Þessi æfing hentar vel flestum en eins og í öllu er mikilvægt að fara rólega af stað og finna hvernig líkaminn bregst við. Þú átt ekki að finna sársauka við sveifluna né eftir æfinguna, hins vegar er mjög líklegt að finna fyrir harðsperrum eftir fyrstu æfingarnar.

Ketilbjöllusveiflan er bæði mjög góð alhliða styrktaræfing og einnig mjög öflug þolæfing. Sveiflan nýtist einnig vel sem endurhæfingar æfing.

 

Bylgja Elín Björnsdóttir, sjúkraþjálfari
Máttur sjúkraþjálfun.