Á að borða fyrir morgunæfingar?

Morgunmatur_1Það er mjög algengt að fólk velti fyrir sér hvort það eigi að borða fyrir æfingar, sérstaklega morgunæfingar. Gott er að borða 60-90 mínútum áður en átökin byrja. Ef styttra er á milli er hætta á hlaupasting og/eða ógleðistilfinningu á æfingunni, sérstaklega ef máltíðin er stór. Ef engin næring er innbyrgð er hætta á orkuleysi á æfingunni sjálfri.

Það segir sig sjálft að ef fólk mætir mjög snemma í ræktina er erfitt að borða með svo löngum fyrirvara nema að vaknað sé um miðja nótt.

Fyrir æfingar mjög snemma morguns er gott að fá sér fljótandi næringu sem líkaminn er fljótur að melta og koma út í kerfið.

Fyrstu 40-60 mínútur æfingarinnar er líkaminn í svokölluðu anabólísku ástandi þar sem vöðvauppbygging er á fullu. Eftir þann tíma fer líkaminn í katabólískt ástand þar sem vöðvaniðurbrot hefst og líkaminn byrjar að vinna gegn sjálfum sér. Þess vegna er gott að fá sér næringu strax að lokinni æfingu eða dreypa á til dæmis amínó-sýrum meðan á æfingu stendur. Eftir æfingu er mjög gott að fá sér mysu-prótein sem má líkja við hraðvirkandi næringu fyrir vöðvana. Æskilegt er að næra sig ekki síðar en 30 mínútum frá æfingu.