Rannsókn sem framkvæmd var af American Council On Exercise leiddi í ljós að Ketilbjölluæfingar eiga fáar sínar líkar þegar kemur að brennslu á hitaeiningum. Í stað hlaupa á hlaupabretti í hálftíma og hálftíma í að lyfta lóðum er hægt að ná sama eða betri árangri á 20 mínútum með ketilbjöllum. Bjöllurnar sameina styrktar- og þolæfingar.
En aftur að rannsókninni. Aukinn áhugi á ketilbjölluæfingum í Bandaríkjunum vakti athygli þeirra hjá ACE (American Council On Exercise) svo þeir ákváðu að kanna virkni æfinganna á líkamann. Þeir nutu aðstoðar vísindamanna hjá háskólanum í Wisconsin við að skoða vísindin á bak við sveiflurnar og áhrifin á eyðslu hitaeininga.
Áður en rannsóknin sjálf hófst voru þátttakendur mældir í bak og fyrir á hlaupabrettum þar sem fylgst var með hjartslætti og súrefnsiupptöku ásamt öðrum viðmiðum. Þegar líkamlegt ástand þátttakenda lá fyrir lá leiðin inn á aðra rannsóknarstofu þar sem áhrif ketilbjöllunnar voru mæld.
Til að byrja með var fólkið, karlar og konur á aldrinum 29 til 46 ára, látið sveifla bjöllum í fimm mínútur, á meðan lífsmörk voru mæld til að mynda grunn til að byggja á. Notaðar voru 12kg 16kg og 20kg ketilbjöllur allt eftir kyni, stærð og þyngd þátttakenda ásamt líkamlegu ástandi þeirra.
Rannsóknin gekk svona fyrir sig:
Sveiflan sem var mæld var Snatch.
Á fyrstu mínútunni sveifluðu þátttakendur átta sinnum eða ein sveifla með sjö sekúndna millibili.
Á annari mínútu fóru sveiflurnar í tólf eða eina sveiflu fimmtu hverja sekúndu..
Á þriðju mínútu voru endurtekningarnar 15 eða ein sveifla á fjórðu hverri sekúndu.
Á fjórðu mínútu urðu endurtekningarnar 20 eða ein sveifla þriðju hverja sekúndu.
Á fimmtu mínútu áttu þátttakendur að láta allt vaða og sveifla þangað til að þeir gátu ekki meira.
Hjartsláttur og súrefnisupptaka voru mæld á öllum stigum og blóðið var rannsakað þremur mínútum eftir að æfingunni lauk. Að auki framkvæmdu þátttakendurnir 20 mínútna ketilbjölluæfingu eftir fimm mínútna upphitun.
Nðurstöður vísindamannanna voru þær að líkaminn brennir 20.2 hitaeiningum á mínútu eða 1.200 hitaeiningum á klukkutíma við ketilbjöllusveiflur þegar allt var saman tekið. Eina æfingin sem vitað er að hafi svipuð áhrif er skíðaganga upp brekku á miklum hraða.